Innlent

Enginn ágreiningur í ríkisstjórninni segir Þorgerður Katrín

Nokkur ágreiningsefni hafa komið upp meðal stjórnarflokkanna og telja sumir stjórnmálaskýrendur að tökin á stjórnarliðum séu ekki jafn ákveðin og áður. Menntamálaráðherra segir að einhugur sé í stjórninni og að stjórnarsamstarfið hafi farið vel af stað.

Leitt hefur verið getum að því að meirihluti stjórnarinnar sé svo tryggur að þingmenn stjórnarflokkanna geti í ríkari mæli en áður sagt skoðanir sínar afdráttarlaust. Aðrir stjórnmálaskýrendur hafa sagt að ekki séu sömu traustu tökin og áður á þingflokkunum.

Nefna má hugmyndina um söluna á Ríkisútvarpinu sem síðasta dæmið um ágreining þar sem Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra og fyrrum menntamálaráðherra, spyr hvort ekki sé réttast að selja batteríið á sama tíma og menntamálaráðherra segir að Ríkisútvarpið sé fráleitt til sölu.

Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur tekið undir sjónarmið Björns varðandi Ríkisútvarpið. Sigurður Kári hefur að auki haft nokkuð aðrar meiningar um Byggðastofnun en Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir segir að þetta þýði ekki að stjórnarliðar hafi endilega lausari taum en áður á stjórnarheimilinu. Ný stjórn sé komin til valda sem sé samstillt og það sé einhugur í henni. Miklu skipti að hún hafi unnið vel saman í erfiðum málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×