Lífið

Hvað gerði Jón Sigurðsson í dag?

Breki Logason skrifar
Jón Sigurðsson, Jón Sigurðsson, Jón Sigurðsson, Jón Sigurðsson og Jón Sigurðsson.
Jón Sigurðsson, Jón Sigurðsson, Jón Sigurðsson, Jón Sigurðsson og Jón Sigurðsson.

Þeir eru um 400 sem bera nafnið Jón Sigurðsson í þjóðskrá okkar íslendinga. Ef nafninu er flett upp í símaskránni fyllir það heilar þrjár síður. Dagurinn í dag var merkilegur fyrir nokkra þeirra, misjafnlega þó. Frá því að hinn eini sanni mælti „Vér mótmælum allir" forðum daga hafi margir nafnar hans látið til sín taka í þjóðfélaginu. Vísir fór yfir daginn hjá fjórum frægustu Jónum Sigurðssonum þessa lands.

FL-Jón
Jón Sigurðsson forstjóri FL Group
Dagurinn hefur verið viðburðarríkur hjá Jóni Sigurðssyni í FL Group. Þetta var hans fyrsti dagur sem forstjóri félagsins og varð hann þar með yngsti forstjórinn í Kauphöllinni. FL-Jón byrjaði daginn á því að gera grein fyrir stöðu FL Group á fundi með svokölluðum "markaðsaðilum" og var síðan mættur í hádegisviðtalið á Stöð 2 þar sem hann stóð sig með prýði. Jón á mikið verk fyrir höndum en fyrsti dagurinn lofar góðu. Banka-Jón
Jón Sigurðsson fyrrverandi ráðherra
Jón Sigurðsson fyrrverandi iðnaðarráðherra og bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans átti einnig viðburðaríkan dag. Bankaráð Þróunarbanka Evrópuráðsins valdi hann í þriggja manna ráð reyndra einstaklinga úr banka- og fjármálalífi Evrópu sem gera mun úttekt á starfsemi bankans og tillögur til úrbóta. Banka-Jón hefur verið áberandi bæði á pólitískasviðinu og í viðskiptalífinu í mörg ár og það er mikil viðurkenning fyrir hann að vera valinn í þessa nefnd. Framsóknar-Jón
Jón Sigurðsson fyrrum formaður Framsóknarflokksins
„Árangur áfram - ekkert stopp," voru einkunnarorð Framsóknar-Jóns í síðustu alþingiskosningum. Þar leiddi hann lista Framsóknarmanna en hann hafði tekið við af Halldóri Ásgrímssyni sem forsætisráðherra skömmu fyrir kosningar. Eftir afleitt gengi flokksins vék hann sem formaður flokksins og snéri sér að kennslu í Háskólanum í Reykjavík. „Dagurinn hjá mér var ágætur. Ég var að undirbúa kennslu en annars er ég í ýmsum verkefnum hjá skólanum," sagði Framsóknar-Jón sem kennir við viðskiptadeild skólans. Idol-Jón
Jón Sigurðsson Idolstjarna
Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík hefur annan nafntogaðan Jón Sigurðsson innanborðs. „Já ég er á fullu í prófum enda byrjaði ég nám í viðskiptafræði í HR nú í haust," segir Jón Sigurðsson sem vann hug og hjörtu landsmanna í fyrstu Idol keppni okkar íslendinga. Hann er þó ekki búinn að gefa sönginn upp á bátinn og segist stunda hann í hjáverkum þó söngurinn sé í lægð þessa dagana. Jón tók nám í mannauðsstjórnun við Háskóla Íslands en ætlar nú að klára viðskiptafræðina með því. „Strákurinn minn hefur verið veikur þannig að ég var með hann í rannsóknum upp á spítala í morgun. Síðan var það bara próflestur eftir hádegið," sagði Idol-Jón sem ætlar sér að klára námið sem fyrst.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.