Lífið

Íslendingurinn umdeildi er stoltur af sprengjulistaverki

Andri Ólafsson skrifar
Þórarinn Ingi Jónsson videolistamaður
Þórarinn Ingi Jónsson videolistamaður

"Ég stend við verkið og er stoltur af því," segir Þórarinn Ingi Jónsson listnemi í Kanada en verk hans "this is not a bomb" gerði allt vitlaust þar í landi í síðustu viku.

Eins og frá hefur verið greint kom Þórarinn fyrir eftirlíkingu af sprengju á listasafni í Toronto en það varð til þess að safnið var rýmt og fjáröflunarsamkomu sem halda átti þar um kvöldið var aflýst.

Þórarni var vikið úr skóla eftir ofsafenginn viðbrögð við verki hans tóku að birtast í fjölmiðlum og þurfti að dúsa eina nótt í fangelsi. Hann á von á ákærum vegna málsins.

Þórarinn segir að þrátt fyrir þetta allt sé hann afar stoltur af verki sínu. Hann bendir á að sjaldan eða aldrei hafi verið rætt jafn mikið um list í Kanada og síðustu daga. Og þótt mest hafi farið fyrir gagnrýni á uppátæki Íslendingsins til að byrja með hafi hann fundið fyrir ótrúlega jákvæðum viðbrögðum í samfélaginu, "bæði frá samnemendum og fólki sem ég hef aldrei hitt," segir Þórarinn.

Hann segir að á næstu dögum muni hann setjast niður með forsvarsmönnum skólans sem honum var vikið úr í von um að komast þar aftur inn. Þórarinn segir að brottvikning sín hafi verið "fjölmiðlastönt" framkvæmt til að þvo hendur skólans af verki hans.

Þórarinn viðurkennir að það hafi verið óheppilegt að aflýsa hafi þurft fjáröflunarsamkomu fyrir rannsóknir á eyðni vegna verksins en hann tekur það fram að hann hefi ekki vitað af henni.

"Þegar framkvæma á verk af þessum skala er ekki hægt að stjórna hverju einasta smáatriði. Það verður alltaf eitthvað element óvissu. Þess vegna verður maður bara að duga eða drepast, og kýla á það," segir Þórarinn Ingi Jónsson videolistamaður.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.