Lífið

Almenningur lætur dóma gagnrýnenda sem vind um eyru þjóta - Luxor uppseld hjá útgefanda

"Þetta er bara alveg frábært. Þetta er bara jákvætt vandamál. Vonandi verður komið nóg að plötunni í verslanir eftir helgina" sagði Sigursveinn Þór Árnason einn af Luxor drengjunum. Fyrsta plata þeirra er nú uppseld hjá útgefanda.

Platan stökk beint í 4 sætið á Tón-listanum sem Morgunblaðið birtir en örfá eintök vantaði uppá að strákarnir héldu sinni stöðu en þeir færðust niður um 2 sæti á listanum milli vikna. Það breytir því ekki að platan er uppseld hjá framleiðandanum SENU og nýtt upplag kemur ekki aftur fyrr en eftir helgi.

Luxor komu fyrst fram á stórtónleikum Kaupþings á Laugardalsvellinum í lok ágúst. Áhorfendur á Laugardalsvelli skiptu tugum þúsunda og ekki voru færri sem fylgdust með útsendingu Sjónvarpsins af tónleikunum. "Síminn hefur ekki stoppað hérna hjá okkur á Concert síðan að strákarnir komu fram á Laugardalsvellinum. Það vilja allir fá þá að skemmta hjá sér" sagði Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir verkefnistjóri hjá Concert en hún hefur yfirumsjón með bókununum fyrir Luxor hjá Concert. "Þeir sem eru með vaðið fyrir neðan sig eru byrjaðir að bóka árshátíðar böndin og Luxor virðist vera ofarlega í hugum margra." bætti Ragnheiður við.

Þeir sem vilja berja goðin augum geta fengið þá til að árita síðustu eintök plötunnar í Hagkaupum í Smáralind klukkan 15:00 á laugardag, og klukkan 17:30 í Hagkaupum í Kringlunni.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.