Lífið

Dóra segir Dani mestu klöguskjóður í heimi

Dórurnar tvær þurfa loka Jolene á föstudaginn.
Dórurnar tvær þurfa loka Jolene á föstudaginn. MYND/Fréttablaðið
Verið er að ganga frá samningum um nýja staðsetningu Jolene, bar Dóru Takefusa og Dóru Dunu Sighvatsdóttur á Norðurbrú í Kaupmannahöfn. Vísir sagði frá því í vikunni að til stæði að loka staðnum vegna kvartana nágranna. Jolene hefur slegið í gegn síðan hann var stofnaður í ágúst á þessu ári og hefur notið mikilla vinsælda hjá þotuliðinu í Kaupmannahöfn. Hann lokar á núverandi staðsetningu á föstudaginn.

,,Við tókum þessa ákvörðun vegna þess að staðurinn býður ekki upp á að barinn hafi leyfi nema til tólf á kvöldin, sem gengur ekki upp." sagði Dóra Takefusa þegar Vísir náði tali af henni. Dórurnar tvær ákváðu því að pakka saman og færa sig um set. Hún segir einnig að nágrannarnir á Sörgefrigade hafi kvartað mikið undan hávaða. Ekki hafi þar verið dúndrandi techno um að kenna, tónlistin hafi verið lægri en tal gesta. Húsnæðið sé þó illa hljóðeinangrað og því hafi ekki verið hægt að hafa gesti þar inni eftir miðnætti.

Dóra segir að þetta sé ekki einsdæmi, enda séu Danir með mestu klöguskjóðum í heimi. Politiken birti frétt um lokun Jolene í vikunni. Dóra segir að blaðið hafi skrifað töluvert undanfarið um bari sem þurfi að loka vegna athugasemda nágranna. og bætir við að kannski sé Politiken að benda fólki á að það ætti frekar að flytja út í sveit sé það svona viðkvæmt fyrir hávaða.

Barinn hefur verið afar vinsæll hjá íbúum Norðurbrúar og segir Dóra að mikil pressa sé á þeim stöllum að hafa barinn áfram í því hverfi. Hún vill þó ekkert gefa upp um hvort svo verði, enda bera fæst orð minnsta ábyrgð í þeim efnum. ,,Við erum bara að ganga frá samningum, það er betra að hafa allt undirskrifað áður en maður gefur neitt upp um það." segir Dóra. Hún lofar því þó að fastakúnnarnir þurfi ekki að óttast miklar breytingar. Staðurinn verði ,,Copy Paste" af þeim gamla.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.