Lífið

Hljómsveitin Hraun í undanúrslit í tónlistakeppni BBC

Hljómsveitin Hraun er komin í 20 hljómsveita úrslit í tónlistarkeppni BBC world service sem nefnist The Next Big Thing. Þegar Vísir náði í Svavar Knút Kristinsson, söngvara sveitarinnar, vildi hann ekki gera mikið úr árangrinum. ,,Ég mundi ekki segja að þetta væri neinn árangur ennþá, það er ekki fyrr en maður er kominn út að spila." Svavar sagði sveitarmeðlimi þó að vonum ánægða. ,,Við vonum bara að þetta verði til að vekja athygli á því sem við erum að gera.

Ljóst er þó að margir vildu vera í sporum Hrauns, því einhverjar þúsundir sveita sendu inn lög í keppnina. Í henni er leitað að björtustu vonum í röðum heimstónlistarmanna og tónlistar sem liggur utan garðs vinsældatónlistar. Nokkur þúsund listamenn frá 88 löndum kepptu í keppninni og koma þeir sem lentu í undanúrslitum m.a. frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Tansaníu, Jamaica, Frakklandi, Singapore og Rússlandi.

Lag Hrauns, Ástarsaga úr Fjöllunum, er nú til spilunar á heimasíðu keppninnar. Það er að finna á plötu Hrauns frá því í vor, I can't believe it's not happiness. Svavar segir að lagið hafi verið tekið upp síldartanki í gömlu síldarvinnslunni í Djúpuvík á Ströndum eitt rauðvínslegið júníkvöld. Staðsetningin og stemningin sem regnið sem féll á tankinn myndaði hafi skilað sér í lagið, og líklega átt sinn þátt í að heilla dómnefndina, sem samanstendur meðal annarra af ekki ómerkara fólki en Tori Amos og Nitin Sawhney.

Eftir viku verður tilkynnt um hvaða fimm sveitir keppa til úrslita í keppninni, en þær sveitir munu leika fyrir dómnefndina í London snemma í desember. ,,Við krossleggjum bara fingur og vonum að þau fíli okkur og biðji okkur að koma og spila í úrslitunum. Það verður bara að ráðast" segir Svavar að lokum.

Hraun munu annað kvöld, miðvikudaginn 28. nóvember, halda tónleika á Næsta bar, þar sem m.a. verður kynnt efni af næstu plötu hljómsveitarinnar, sem áætlað er að komi út næsta vor. Tónleikarnir hefjast kl. 21.30 og mun Eyvindur Karlsson rithöfundur lesa upp úr bók sinni Ósagt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.