Lífið

Kayne grætur móðir sína á sviði

MYND/Getty Images

Bandaríski rapparinn Kayne West brotnaði saman á sviði í London þegar hann flutti lag um móður sína sem lést í síðustu viku. Þetta var í fyrsta sinn sem Kayne kom fram opinberlega eftir að Donda West var jarðsett síðastliðinn þriðjudag.

West tileinkaði móður sinni lagið Hey Mama á tónleikunum í O2 tónleikahöllinni. Tónleikarnir marka upphaf tónleikaferðalags í Bretlandi og á Írlandi.

Kayne þurrkaði sér um augun og hélt höndum um höfuð sér þegar áhorfendur stóðu upp og klöppuðu ákaflega í þrjár mínútur.

Einn áhorfendanna sagði BBC að hún hefði fundið mjög til með West þegar hann söng lagið og flutningurinn hefði verið sá besti sem hún hefði séð og heyrt hjá söngvaranum; „Af því að það voru tilfinningar í laginu.“

Donda West lést á sjúkrahúsi í Los Angeles 58 ára að aldri eftir vandkvæði í kjölfar uppskurðar. Kayne talaði oft um samband sitt við móður sína. Hún ól hann ein upp eftir að eiginmaður hennar yfirgaf hana þegar Kayne var þriggja ára.

Í laginu Hey Mama segir meðal annars; „Ég er svo stoltur af þér. Ég er þakklátur fyrir það sem þú gerðir fyrir mig, ég vil bara að þú sért stoltur af mér.“

Tónleikaferðalagi West í Bretlandi og á Írlandi lýkur í Glasgow 4. desember næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.