Lífið

Allir hættir að tala við Magna

Breki Logason skrifar
Platan hans Magna fer víða í heiminum.
Platan hans Magna fer víða í heiminum. Matthías Árni Ingimarsson

„Ég er löngu fallinn í gleymskunnar dá, og kann bara ágætlega vel við það," segir Magni Ásgeirsson tónlistarmaður sem er þó að gera flotta hluti með nýju plötuna sína. Það hefur ekki mikið farið fyrir Magna hér heima en þrátt fyrir það fer hann víða í heiminum.

„Ég fer í gegnum fyrirtæki sem heitir Adrenaline og þeir eru í raun dreifingaraðili fyrir mig og dreifa plötunni í nánast öllum löndum í heiminum," segir Magni en fyrirtækið dreifir plötunni einungis á netinu.

Plötuna er því hægt að nálgast í löndum eins og Danmörku, Bretlandi, Japan, Kanada, Nýja-Sjálandi og flestum löndum sem sýndu Rock Star þáttinn sem Magni sló svo eftirminnilega í gegn á sínum tíma.

Magni er nokkuð rámur og segist hafa verið með hálsbólgu í þrjá mánuði. Hann er nýkominn heim frá Danmörku þar sem hann var að syngja á einhverri árshátíð.

„Ég á samt plötuna en þeir eru það sem má kalla digital útgefendur. Tæknilega séð er ekki búið að gefa plötuna út en hún er komin á netið í þessum löndum. Síðan verður ákveðið hvernig hún verður kynnt og ef það myndast góð stemmning er hún gefin út upp á gamla mátann," segir Magni og á þar við að hægt verði að kaupa plötuna út í búð.

Magni er þó byrjaður að fá einhverja spilun á bandarískum útvarpsstöðvum og platan hefur verið að seljast eitthvað á amazon.com.

"Ég held hún hafi farið best í sæti 180 en þar er hægt að kaupa nánast allar plötur í heiminum. Það er samt mest pirrandi við þann vef að þeir uppfæra sölutölur á klukkutíma fresti. En ég held að Sigur Rós hafi farið á topp 10 með nýju plötuna sína þar á tímabili."

Þegar Magni tók þátt í bandaríska raunveruleikaþættinum Rockstar Supernova var stofnuð aðdáendasíða magni-ficent.com en sú síða er ennþá nokkuð virk. "Þar er fólk frá Íslandi að senda út diska og þjónusta kannann. Það eru bara aðdáendur sem höfðu samband við mig og ég læt þau fá plötur á kostnaðarverði. Þeir senda síðan plötur út og mér finnst þetta virðingarvert framtak," segir Magni en fleiri af félögum Magna úr þáttunum hafa farið svipaða leið og Magni er að fara með sínar plötur.

„Storm gaf út 6 laga plötu og fór svipaða leið og ég. Toby er ennþá að klára sína plötu og svo er Dilana að taka upp núna í desember. Hún er reyndar að fara gömlu leiðina ef svo má segja. Er með umboðsmenn og það eru einhverjar þreifingar hjá henni meðal annars í London," segir Magni en Dilana var einmitt stödd hér á landi um helgina.

„Hún var í London og skrapp aðeins yfir enda er Ísland góður staður til að vera á. Ég hitti hana aðeins og svo heilsaði hún líka upp á Skjöld og plöggaði hann aðeins, þau þekkjast síðan hún var hérna í fyrra."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.