Lífið

Geir betri söngvari en pólitíkus?

Geir er margt til lista lagt.
Geir er margt til lista lagt. MYND/Fréttablaðið
Geir H. Haarde forsætisráðherra sýnir á sér nýja og óvænta hlið í viðtækjum landsmanna þessa dagana, en hann syngur lag á nýrri plötu South River Band - Allar stúlkurnar. Platan verður seld til styrktar MS félaginu á vefnum Tónsprotinn.is, sem verður opnaður í dag.

,,Mér finnst Geir tvímælalaust sýna betri takta í söngnum en pólitíkinni." segir Ögmundur Jónasson alþingismaður, en hann opnar vefinn formlega klukkan fimm í dag. ,,Ég vildi óska þess fyrir hönd þjóðarinnar að hann væri eins góður pólitíkus og söngvari." ,,Ekki svo að skilja að Geir sé ekki margt vel til lista lagt í pólitík." sagði Ögmundur.

Aðspurður hvort hann muni taka lagið af tilefninu segir Ögmundur svo ekki vera: ,,Nei, ég því miður bý ekki yfir þessum hæfileika að geta sungið. Ég bý hinsvegar yfir því að geta metið góða tónlist. Ég hef gaman af því að hlusta á fólk syngja, þar á meðal Geir H. Haarde sem er með sérstaklega góða söngrödd."

Á vefsíðu Tónsprotans segir að vefnum sé ætlað að vera vettvangur fyrir þá tónlistarmenn sem vilja bjóða tónlist sína fram á einum stað - á netinu - og styrkja í leiðinni gott málefni. Öllum kostnaði við verslunina er haldið í lágmarki til að diskarnir verði á samkeppnishæfu verði þó stór hluti af söluverði þeirra renni til styrktar góðum málefnum.

Síðan á rætur sínar að rekja til þess að South River Band höfðu gefið út fjóra diska, sem voru seldir í símasölu til styrktar góðgerðarmálum. Diskar sveitarinnar hafa hinsvegar ekki verið fáanlegir í verslunum. Hljómsveitarmeðlimir vildu gjarnan halda áfram að styrkja góð málefni í gegnum útgáfu sína en einnig vildu þeir gera tónlist sína aðgengilegri fyrir fólk, án þess þó að gera hefðbundna dreifingarsamninga. Niðurstaðan varð sú að koma á laggirnar vefverslun. Þegar sú ákvörðun lá fyrir kom á daginn að fjöldi tónlistarmanna höfðu áhuga á að taka þátt í starfseminni og selja þeir tónlist sína nú á síðunni til styrktar góðum málefnum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.