Lífið

OJ fyrir rétt - Önnur sápa í uppsiglingu?

Hann hefur snúið sig út úr klístraðri málum en þessu.
Hann hefur snúið sig út úr klístraðri málum en þessu. MYND/Getty
Dómari í Las Vegas úrskurðaði í gær að næg sönnunargöng væru fyrir því að OJ Simpson og fimm aðrir menn hefðu rænt íþróttaminjagripasala til þess að hægt væri að rétta yfir þeim.

Þessi niðurstaða kemur í kjölfar fjögurra daga af vitnaleiðslum. þar bentu flest af átta vitnum saksóknara á Simpson sem höfuðpaur hóps sem hefði ruðst inn á hótelherbergi þann þrettánda september síðastliðinn í þeim tilgangi að ræna minjagripunum.

Tveir mannanna í hópnum hafa samið um vægari refsingu gegn því að bera vitni gegn Simpson. Þeir segja báðir að hann hafi verið með byssu á hótelinu.

Lögfræðingur Simson eyddi megni tímans hins vegar í það að benda á að mununum sem hann tók hafi í raun verið stolið af íþróttastjörnunni fyrrverandi. Þá benti hann á að hin vitnin gætu haft óhreint mjöl í pokahorninu. Þau hefðu hagnast á því að segja sögu sína. Eitt þeirra hefði tekið atvikið upp og selt slúðurvefsíðu upptökuna, annar maður hefði verið í sjónvarpsviðtali kvöldið áður en hann bar vitni.

Réttað verður yfir Simpson og tveimur öðrum mönnum fyrir 12 ákærur, meðal annars vopnað rán og mannrán. Búist er við að réttarhöldin hefjist vorið 2008.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.