Lífið

Djúpavogsbúar háma í sig svið

Um hundrað hausa þarf til að fæða mannskapinn.
Um hundrað hausa þarf til að fæða mannskapinn. MYND/Fréttablaðið
Árleg sviðamessa verður haldin á Djúpavogi laugardaginn 10. nóvember næstkomandi. Þetta er í ellefta sinn sem bæjarbúar halda sviðamessuna, en með henni hefur verið endurvakinn sá gamli íslenski siður að fagna vetrarkomu skömmu eftir sláturtíð og gæða sér á sviðum og löppum með rófustöppu og kartöflum.

Kristján Ingimarsson ferða og menningarmálafulltrúi Djúpavogs segir hátíðina vera nokkurs konar íslenska útgáfu af Halloween, og því hafi gestir oft mætt til messunnar í grímubúningum. Þá sé þeim sem ekki leggja í rammíslenska sviðakjamma með tilheyrandi meðlæti boðið upp á flatbökur.

Messan er orðin fastur liður í tilverunni á Djúpavogi, og er algengt að brottfluttir Djúpavogsbúar komi heim fyrir messuna. Um 120 manns mæta á hátíðina ár hvert og reiknar Kristján með að um hundrað hausa þurfi til að fæða mannskapinn.

Að loknu sviðaáti verður svo tónlistarsýning þar sem Tónleikafélag Djúpavogs mun gera tímabilinu 1965 - 1975 skil, með því að flytja tónlist frá tímabilinu, allt frá Bítlunum til Bowie auk þess sem sögur frá tímabilinu verða sagðar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.