Innlent

Efling netsambands í samkeppni um fólk og fyrirtæki

Heimir Már Pétursson skrifar

Bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi segir samkeppni ríkja milli sveitarfélaga um fólk og fyrirtæki og til að bæta samkeppnisstöðu Seltjarnarness verði öllum boðin endurgjaldslaus aðgangur að þráðlausu netsambandi.

Íbúar Seltjarnarness fá aðgang að þráðlausu netsambandi snemma á næsta ári, samkvæmt samkomulagi sem Seltjarnarnesbær og Vodafone kynntu í morgun. Þetta þýðir að bæjarfélagið verður allt heitur reitur fyrir notendur fartölva. Notendur munu komast í þráðlaust háhraða netsamband alls staðar í bænum. Vodafone annast uppbyggingu og rekstur kerfisins en Seltjarnarnesbær leggur fram rafmagn og aðstöðu.

Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi segir að þetta muni hafa margvíslega þýðingu bæði fyrir bæjarbúa og fyrirtæki í bænum. Þá muni þetta breyta miklu fyrir Seltjarnarnesbæ varðandi rafræna stjórnsýslu. Þetta auki aðgengi að netinu og sveigjanleika til að reka viðskipti, nám eða leiki hvar og hvenær sem er.

Síminn bendir á að allt höfuðborgarsvæðið sé heitur reitur fyrir þá sem nota hina nýju þriðju kynslóð farsíma og tölva, en enn sem komið er er meirihluti landsmanna enn með hinn hefðbundna farsíma. Seltirningar þurfa ekki að breyta búnaði sínum til að nýta sér þráðlausa sambandið.

Björn Víglundsson framkvæmdastjóri hjá Vodafone segir að um sama búnað sé að ræða og fólk sé með í tölvunum sínum í dag. Fólk þurfi aðeins að tengjast nýja netinu þegar það verði komið upp.

Nú þegar liggja tveir ljósleiðarar inn á hvert heimili og fyrirtæki á Seltjarnarnesi og segir í tilkynningu frá bænum að hann hafi verið fyrsta sveiatrfélagið í heiminum til að verða ljósleiðaravætt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.