Lífið

Naomi Campbell brjálast á Heathrow

Hin geðgóða ofurfyrirsæta Naomi Campbell tók brjálæðiskast á Heathrow flugvelli í gær þegar hún missti af flugi til New York. Campbell mætti ellefu mínútum fyrir áætlaða brottför og krafðist þess að fá að fara um borð.

Að sögn vitna stappaði fyrirsætan niður fótunum og sagði að starfsmenn innritunarborðsins yrðu að hleypa sér um borð. Samkvæmt heimildum Daily Mirror buðu starfsmenn British Airways henni að fara um borð í vélina án farangurs, sem yrði sendur með næsta flugi. Þetta leist fyrirsætunni ekki á, enda væri það alþekkt að flugfélagið týndi farangri.

Henni var að lokum boðið sæti í næsta flugi, en það þáði hún ekki, heldur strunsaði á brott.

Campbell hefur í gegnum tíðina átt í vandræðum með að hemja skap sitt og á að baki fjölda kæra vegna þess. Þá hefur hún meðal annars þurft að sinna samfélagsþjónustu og verið gert að sækja tíma í reiðistjórnun fyrir það að grýta farsíma í aðstoðarkonu sína.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.