Lífið

Britney sleppur vel

MYND/Getty
Hin endalaust óheppna Britney Spears slapp fyrir horn í gær þegar dómari í Kaliforníu ákvað að hún skyldi ekki sótt til saka fyrir að stinga af vettvangi slyss. Ástæðan var sú að poppstjarnan hafði bætt eiganda hins bílsins tjónið.

Þann 6. ágúst síðastliðinn náði her paparassa myndum af Britney þar sem hún keyrði bíl sínum utan í kyrrstæðan bíl og stakk af. Til að bæta gráu ofan á svart var poppstjarnan próflaus í Kaliforníu.

Eftir að eigandi hins bílsins kærði málið bauð stjarnan honum 1000 dollara skaðabætur ásamt því að borga fyrir bílaleigubíl á meðan gert væri við bíl hans. Eigandinn var sáttur við þær málalyktir og því ákvað dómarinn að ekki yrði farið lengra með málið.

Hún þarf þó enn að svara til saka fyrir það að vera ekki með gilt skírteini. Saksóknari bauð henni sættir, en þær hefðu falið það í sér að hún hefði verið á skilorði í ár. Lögfræðingur hennar taldi ekki vænlegt að gangast við því, þar sem hún hefði nú þegar bætt fyrir brotið með því að fá sér ökuskírteini í Kaliforníu, auk þess sem hún hafi þegar slysið gerðist verið með gilt skírteini í Louisiana.

Málið verður tekið fyrir 26. nóvember. Britney gæti þó átt erfitt með að mæta vegna anna í lögfræðimálum, en forræðismál hennar og Kevins Federline verður tekið fyrir sama dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.