Lífið

Kid Rock fangelsaður fyrir barsmíðar

Kid Rock virðist í einhverjum vandræðum með að hemja skap sitt þessi misserin.
Kid Rock virðist í einhverjum vandræðum með að hemja skap sitt þessi misserin. MYND/AP

Bandaríski tónlistarmaðurinn Kid Rock, fyrrverandi eiginmaður Pamelu Anderson, var handtekinn um helgina fyrir að hafa barið mann á veitingastað í Atlanta.

Eftir því sem erlendir miðlar grein frá kom til átaka milli Rocks og fylgdarmanna hans annars vegar og karlmanns á veitingastaðnum Vöffluhúsinu hins vegar eftir orðaskipti. Gengu Rock og félagar svo harkalega í skrokk á manninum að hann þurfti að leita aðstoðar á sjúkrahúsi.

Rock lét sig hverfa eftir átökin en lögregla stöðvaði hljómsveitarrútu rapparans skömmu síðar og handtók Rock og fimm félaga hans. Máttu þeir dúsa í fangaklefa í gærdag en var sleppt gegn tryggingu í gærkvöld. Rock verður ákærður fyrir líkamsárás og jafnframt fyrir skemmdarverk en rúða mun hafa brotnað á veitingastaðnum í hamagangnum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kid Rock kemst í fréttirnar vegna áfloga því fyrr á árinu réðst hann á kviðmág sinn, Tommy Lee, fyrrverandi eiginmann Pamelu Anderson, á MTV-tónlistarhátíðinni. Það mál hefur einnig ratað fyrir dómstóla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.