Lífið

Bilet.ro hlýtur verðlaun í Rúmeníu

Bilet.ro hefur meðal annars haft umsjón með miðasölu á tónleika Rolling Stones í Rúmeníu.
Bilet.ro hefur meðal annars haft umsjón með miðasölu á tónleika Rolling Stones í Rúmeníu. MYND/Getty

Bilet.ro, dótturfélag Miða.is, sigraði í flokki afþreyingarvefja við afhendingu rúmensku vefviðskiptaverðlaunanna í síðustu viku. Þetta var í annað sinn sem verðlaunin voru afhent og hlaut Bilet.ro verðlaun í flokknum „Besti afþreyingar og frístundavefurinn.“ Alls voru 24 vefir í úrslitum í þeim flokki.

Vefur móðurfélagsins Miði.is er fyrirmynd Bilet.ro en Miði.is hreppti verðlaun í tveimur flokkum af fimm við afhendingu íslensku vefverðlaunanna 2007.

„Þessi verðlaun eru sérstakur heiður og jafnvel ánægjulegri viðurkenning en þau íslensku," sagði Einar Sævarsson, framkvæmdastjóri Miða.is, í samtali við Vísi. „Við erum nýtt fyrirtæki á rúmenska markaðnum og það er alveg magnað hvað okkur hefur verið tekið vel. Auðvitað er samkeppni hér eins og annarstaðar, en kúnninn hefur augljóslega kosið og þessi verðlaun eru skemmtileg staðfesting á því."

Í kjölfar inngöngu Rúmeníu í Evrópusambandið hafa sífellt fleiri stórstjörnur stigið á stokk þar í landi. Fyrirtækið hefur haft umsjón með miðasölu á stórtónleika þekktra listamanna svo sem Rolling Stones, Black eyed peas, Muse, Beyoncé og fleiri. Bilet.ro hóf formlega starfsemi í mars síðastliðnum og hefur á örfáum mánuðum náð ráðandi markaðshlutdeild í rúmenskri miðasölu.

Miði.is var stofnað árið 2002 og starfa 10 manns hjá fyrirtækinu. Hjá rúmenska félaginu starfa ríflega 10 manns auk starfsmanna hjá samstarfsfyrirtækjum og á útsölustöðum. Miði.is og Bilet.ro annast miðasölu á leikrit, tónleika, kvikmyndir, íþróttaleiki, námskeið, ráðstefnur og fleira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.