Lífið

Stuðmenn vonast til að Ringo Starr renni á hljóðið

Stuðmenn ætla að kalla saman Bítlagæslumennina og slá upp Bítlavöku á Nasa á laugardagskvöld. Þeir vonast til að Ringo Starr renni á hljóðið. Ringo verður gestur Yoko Ono á Íslandi um helgina.



Bítlunum Paul McCartney og Ringo Starr hefur verið boðið að vera við tendrun á friðarsúlu Yoko Ono í Viðey, á afmælisdegi John Lennon þann 9. október.

Talsmaður Yoko varðist í dag allra frétta af gestalista Yoko en samkvæmt heimildum Stöðvar 2 er nánast öruggt að bítlatrymbillinn Ringo komi hingað til að horfa á friðarljósið kvikna í Viðey. Ekki er jafn víst að Paul McCartney láti sjá sig undir friðarsúlunni.

Ringo var hér sumarið 1984 og lamdi sem kunnugt er húðir í félagi við Stuðmenn í Hallormsstaðaskógi. Jakob Frímann Magnússon, Stuðmaður og liðsstjóri Bítlagæslumanna, segir að allir Bítlagæslumennirnir séu í góðu formi en Stuðmenn ætla að spila á Nasa um helgina. Hann vonast jafnvel til að Ringo renni á hljóðið eins og í Atlavík um árið.

Rúmur aldarfjórðungur er nú liðinn frá því Lennon féll fyrir hendi morðingja. Hefði Lennon lifað ætti hann í vændum að verða 67 ára gamall þann 9. október. Fjórði bítillinn, og aðalgítarleikari sveitarinnar, George Harrisson, lést árið 2001.

Miðað við meint gott form Bítlagæslumanna Stuðmanna, sem eru jafnmargir upprunalegu Bítlunum, ættu þeir að fara létt með að gæta þeirra tveggja sem eftir lifa. Bítlagæslumennirnir, sem getið er um í Stuðmannalaginu um Hringinn frá Lifrar í polli, eru Jónas R. Jónsson, Egill Eðvarðsson, Gunnar Þórðarson og Sigurjón Sighvatsson.

Paul McCartney bassaleikari og tónskáld var hér aldamótaárið 2000 með fyrrverandi eiginkonu sinni Heather Mills. Ekki fer sögum af matarást McCartney hér en Ringo hefur einfaldan smekk. Jakob segir að Ringo hafi ekki litið við humri og álíka kræsingum í "den"; "hann vild bara fish and chips," eða ýsu og kartöflur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.