Lífið

Ljósmyndaþjófur Cruise deyr

Maður sem viðurkenndi að eiga þátt í tilraun til að kúga um hundrað milljónir íslenskra króna út úr Tom Cruise, fannst látinn í gær. Maðurinn hafði stolið myndum úr brúðkaupi leikarans. Rannsókn lögreglunnar leiddi í ljós að svo virtist sem David Hans Schmidt hefði framið sjálfsmorð.

Hann var í stofufangelsi og átti yfir höfði sér tveggja ára fangelsisvist vegna ákærunnar um fjárkúgunina. Hann fannst látinn á heimili sínu í Phoenix í Arizona á föstudag eftir að lögregla tók eftir að skynjari sem hann bar hefði ekki hreyfst og hann hafði ekki tilkynnt sig til yfirvalda.

Schmidt er þekktur fyrir að taka myndir af stjörnunum þrátt fyrir að hafa ekki leyfi til þess. Hann sagðist hafa undir höndum 7.600 myndir úr brúðkaupinu. Hann sendi nokkra tölvupósta til starfsfólks Cruise og 13 myndir til að sanna mál sitt. Hann vonaðist til að ná samkomulagi við Hollywoodstjörnuna.

Fjárkúgarinn náðist eftir fund sem hann átti með starfsmönnum leikarans og lögreglumanni í dulargervi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.