Lífið

Þjófar stela nýjasta handriti Coppola

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Francis Ford Coppola á úrslitaleik Libertadores Cup í Buenos Aires fyrr á árinu.
Francis Ford Coppola á úrslitaleik Libertadores Cup í Buenos Aires fyrr á árinu. MYND/AFP

Þjófar í Argentínu stálu tölvu bandaríska kvikmyndaleikstjórans Francis Ford Coppola, en í henni var handrit af nýjustu kvikmyndinni sem Óskarsverðlaunahafinn vinnur að. Fimm vopnaðir menn réðust inn í hús leikstjórans í Palermo hverfinu í Buenos Aires, en þar býr efnameira fólk borgarinnar. Þeir létu greipar sópa og tóku meðal annars tölvur og myndavélar.

Leikstjórinn var ekki heima þegar mennirnir brutust inn. En þjófarnir réðust að manneskju sem var í húsinu, hótuðu henni og börðu.

Talsmaður Coppola hefur boðið peningaverðlaun fyrir þann sem kemur tölvunni í réttar hendur, en í henni voru gögn sem eru afar mikilvæg leikstjóranum.

Coppola er fimmfaldur Óskarsverðlaunahafi og leikstýrði meðal annars trílógíunni um Guðföðurinn og Acopalypse now.

Matt Dillon mun leika aðalhlutverkið í nýju myndinni Tetro sem fjallar um samkeppni kynslóða ítalskrar listafjölskyldu sem flyst til Buenos Aires. Tökur á myndinni hefjast í febrúar á næsta ári.

Coppola er miður sín vegna þjófnaðarins. Hann hefur búið í Buenos Aires í nokkra mánuði og lært spænsku á meðan hann hefur unnið við handritið að Tetro.

Coppola er ekki fyrsti þekkti Bandaríkjamaðurinn sem verður fórnarlamb þjófa í Buenos Aires. Handtösku og farsíma Barböru Bush, dóttur Bandaríkjaforseta var rænt af henni á síðasta ári, þrátt fyrir að hún væri undir vernd bandarísku leyniþjónustunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.