Lífið

Berst fyrir Bobby í Bandaríkjunum

Andri Ólafsson skrifar

Einkaþjálfarinn Raul Rodriguez, sem um tíma var áberandi í íslensku þjóðlífi en er nú búsettur í Los Angeles, vinnur nú hörðum höndum að því að hreinsa skáksnillinginn og íslenska ríkisborgarann Bobby Fischer af öllum sökum svo að hann geti heimsótt sitt gamla föðurland.

Eins og kunnugt er hefur Bobby Fischer verið eftirlýstur og ákærður í Bandaríkjunum fyrir skattsvik og að hafa brotið alþjóðlegt bann þegar hann tefldi við Boris Spassky í Serbíu árið 1992. Hann var við það að verða framseldur til Bandaríkjanna frá Japan þegar íslensk stjórnvöld veittu honum ríkisborgararétt árið 2005.

Fischer kynntist einkaþjálfaranum Raul Rodriguez skömmu eftir komuna til Íslands og tókust með þeim góð kynni. Iðulega sást til þeirra félaga við snæðing á veitingastöðum eða í gönguferðum um miðborgina.

Eftir að Rodriguez flutti til Los Angeles hefur hann unnið hörðum höndum að því að koma málsstað vinar sína á framfæri. Rodriguez segist meðal annars hafa kynnt hugmyndir þess efnis að vinna að því að hreinsa mannorð Fischer við Íslandsvini í Bandaríkjunum á borð við Quentin Tarantino og Eli Roth.

Rodriguez segist eiga þá ósk heitasta að Bobby geti heimsótt sitt gamla föðurland án þess að eiga á hætt að verða handtekinn og leiddur fyrir dómara vegna einhvers sem gerðist fyrir langa löngu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.