Lífið

Bæjarstjóri lærir Tjútt og Cha Cha Cha

Árni stefnir að því að verða meira en liðtækur á dansgólfinu von bráðar
Árni stefnir að því að verða meira en liðtækur á dansgólfinu von bráðar MYND/365

Árni Sigfússon, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, fór í sinn fyrsta danstíma í Dansskóla Jóns Péturs og Köru í gær ásamt eignkonu sinni Bryndís Guðmundsdóttir. Þar lærði hann meðal annars grunnsporin í Jive, Cha Cha Cha og Tjútti. Hann sprangaði um dansgólfið í félagi við ekki ómerkari menn en Jón Sigurðsson í Össuri og Halldór Guðmundsson rithöfund sem einnig eru nemendur í skólanum, ásamt eiginkonum.

Aðspurður að því hvað varð til þess þau hjónin ákváðu að byrja að æfa dans segir Árni að bróðir hans hafi talið þörf á því að hann lærði nokkur spor til að hæfa eiginkonunni betur, en bróðir Árna er einnig nemandi í skólanum.

Námið leggst vel í Árna og segir hann að Jón Pétur hafi verið mjög skemmtilegur og einnig tillitssamur gagnvart byrjendamistökum. Árni virðist hafa fengið bakteríuna strax í fyrsta tíma og er strax búinn að setja sér háleit markmið. "Ég stefni ótrauður á kennarann enda gott að hafa að einhverju að hverfa þegar bæjarstjórastörfum lýkur."

Árni sem ætlar að sækja tíma einu sinni í viku í vetur segir ekki mikið mál að bruna í bæinn, en skólinn er til húsa í Borgartúni. "Þetta tekur álíka langan tíma og að keyra úr Breiðholti," segir bæjarstjórinn hinn ánægðasti með nýja áhugamálið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.