Innlent

Knúði mann til að taka fé af reikningi sínum með ofbeldi

Ákærði neyddi fórnarlamb sitt til þess að taka út 100 þúsund krónur í Sparisjóði vélstjóra við Borgartún.
Ákærði neyddi fórnarlamb sitt til þess að taka út 100 þúsund krónur í Sparisjóði vélstjóra við Borgartún. MYND/GVA
Karlmaður hefur verið ákærður fyrir bæði líkamsárás og rán fyrir að knýja annan mann með ofbeldi og hótunum um ofbeldi til þess að fara í banka og taka út fé af reikningum sínum. Ákæra á hendur manninum var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

Um tvö tilvik var að ræða sem komu upp snemma árs. Í fyrra tilvikinu, sem var í febrúar, réðst hinn ákærði að manninum og barði hann þannig að hann meðal annars viðbeinsbrotnaði. Sú árás átti sér stað að nóttu til.

Morguninn eftir fór árásarmaðurinn með fórnarlambið og neyddi það til þess að taka út fé af reikningum sínum, annars vegar í Sparisjóði vélstjóra í Borgartúni og hins vegar í útibúi SPRON í Skeifunni, samtals 110 þúsund krónur.

Í seinna tilvikinu, sem var síðla marsmánaðar, neyddi hann sama mann til þess að fara í útibú KB banka og láta yfirfæra yfir 300 þúsund krónur yfir á reikning sinn. Síðan tók árásarmaðurinn þá peninga út og hafði á brott með sér. Krafist er refsingar yfir manninum og þá fer fórnarlambið fram á rúmar 600 þúsund krónur í skaðabætur vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×