Innlent

Sveitarfélögin taki á fortíðarvanda Strætós

Björn Gíslason skrifar
MYND/Valgarður
Tap Strætós byggðasamlags var um 80 milljónir króna á fyrri helmingi þessa árs samkvæmt árshlutareikningi sem stjórn fyrirtækisins samþykkti í síðustu viku. Um töluverðan bata í rekstri er að ræða á milli ára því tapið á fyrri helmingi síðasta árs var 395 milljónir. Byggðasamlagið glímir hins vegar við uppsafnaðan rekstarvanda upp á 650 milljónir og hefur stjórn þess leitað eftir því að sveitarfélögin leysi þann vanda.

Tap Strætós á síðasta ári nam 532 milljónum króna en að sögn Ármanns Kr. Ólafssonar, stjórnarformanns Strætós, hefur verið unnið að því frá því að ný stjórn tók við eftir sveitarstjórnarkosningar í fyrra að laga stöðu samlagsins. Hann segir að ef ekki hefði verið gripið inn í hefði tap síðasta árs hæglega getað verið á bilinu 800-900 milljónir króna. Ánægjulegur viðsnúningur hafi verið á fyrri helmingi þessa árs þar sem hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði hafi verið um 20 milljónir króna.

Strætó tæknilega gjaldþrota

Við tap ársins 2006 bættist tapið á árinu 2005 sem nam nærri 200 milljónum króna og því er rekstrarvandi Strætós æði mikill. Fram kemur í ársskýrslu fyrir síðasta ár að eigið fé byggðasamlagsins hafi verið neikvætt um 650 milljónir. Aðspurður hvort Stætó sé þá ekki tæknilega gjaldþrota játar Ármann því en segir að önnur lög gildi um byggðasamlög en almenn fyrirtæki.

Það sé á ábyrgð sveitarstjórnanna á höfuðborgarsvæðinu að takast á við vandann. Væntanlega verði tekið á þessum fortíðarvanda á nokkrum árum þar sem um mikla fjármuni sé að ræða. „Það þarf hins vegar að taka á málinu sem fyrst því það er nánast ómögulegt að reka félagið undir þessum kringumstæðum," segir Ármann.

Aðspurður segir Ármann að uppsafnað rekstarvanda á árunum 2005 og 2006 megi meðal annars rekja til þess að leiðum hafi verið bætt inn í tengslum við breytingar á strætókerfinu. Það hafi verið mjög dýrt. Þá hafi sú ákvörðun að bjóða upp á strætóferðir á tíu mínútna fresti ekki skilað því sem ætlað var. Jafnvægi sé að nást í rekstrinum og nú viti menn hvað þeir séu með í höndunum.

Búast við tapi á þessu ári

Meðal sparnaðaraðgerða sem gripið var til var að bjóða aðeins upp á Strætó á hálftímafresti í sumar og segir Ármann að lítið hafi borist af kvörtunum vegna þess. Hann segir að forsvarsmenn Strætós hafi nú aðlagað starfsemi Strætós á þann hátt að bjóða upp á flestar ferðir þegar álagið sé mest. Þannig séu ferðir á fimmtán mínútna fresti á helstu leiðum á álagstímum.

Aðspurður segir Ármann að áætlanir þessa árs hafi gert ráð fyrir sparnaði upp á 160 milljónir króna. „Það kallaði hins vegar á skerta þjónustu og á það féllust sveitarfélögin ekki," segir Ármann. Þá hafi tekjur Strætós verði minni en áætlað var og stjórnin hafi viljað bregðast við því með sparnaði en á það hafi heldur ekki verið fallist. Því sé útlit fyrir að tap ársins verði 160 milljónir og það sé sveitarfélaganna að glíma við þann vanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×