Lífið

Íslenskir töframenn undir einum hatti

Félagsmenn HÍT. Lárus er lengst til hægri í fremri röð.
Félagsmenn HÍT. Lárus er lengst til hægri í fremri röð.

Töframenn landsins hafa ákveðið að taka höndum saman og hafa þeir stofnað Hið íslenska töframannagildi, HÍT. Félagið er aðili að IBM, International brotherhood of magicians, einum virtustu töframannasamtökum heimsins.

Lárus Guðjónsson, ritari gildisins segir að stofnfélagar séu 12 talsins en samtökunum er ætlað að vera vettvangur áhugafólks um töfra og töfrabrögð. Samtökunum er einnig ætlað að auka áhuga almennings á töfrum og töfrabrögðum auk þess sem félagsmenn hjálpa hver öðrum við að bæta þekkingu sína og færni í listinni. Fundir eru haldnir einu sinni í mánuði en þar hittast félagsmenn og ræða um allt sem tengist töfralistinni auk þess sem þeir sýna nýjustu brellurnar í bransanum.

Á meðal stofnfélaga í samtökunum eru Björgvin Franz Gíslason, leikari, Baldur Brjánsson, frumkvöðull í töframennsku á Íslandi og Pétur Þorsteinsson, prestur óháða safnaðarins.

Lárus ritari segist hafa stundað töfrabrögð frá sex ára aldri. „Ég fékk fyrsta borgaða giggið þegar ég var 12 ára og það hefur verið nóg að gera síðan þá." Í lok október stendur til að fá til landsins hinn heimsfræga töframann David Jones frá Bretlandi. Jones mun halda fyrirlestur fyrir félagsmenn auk þess sem hann mun halda töfrasýningu fyrir almenning.

Heimasíða Hins íslenska töframannafélags er hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.