Innlent

Nýr ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið

Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu hefur verið ráðinn til starfa í utanríkisráðuneytinu. Við starfi ráðuneytisstjóra tekur Berglind Ásgeirsdóttir sem áður gegndi stöðu sviðsstjóra viðskiptasviðs í utanríkisráðuneytinu.

Í tilkynningu frá ríkisstjórn Íslands segir að í samræmi við stefnuyfirlýsingu hafi verið ákveðið að beita sér fyrir aukinni þátttöku Íslendinga á sviði þróunarverkefna í heilbrigðismálum á alþjóðlegum vettvangi. „Ríkisstjórnin hefur farið þess á leit við Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, að hann leiði þetta starf fyrir hönd Íslands frá og með 1. september. Davíð hefur fallist á þá beiðni og lætur um leið af starfi ráðuneytisstjóra í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu," segir í tilkynningunni.

Davíði mun gegna embætti "Special Envoy for Global Health" og mun hann sinna umbeðnum störfum á vettvangi alþjóða heilbrigðismála, með sérstaka áherslu á málefni Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar, WHO.

Berglind Ásgeirsdóttir hefur undanfarið gegnt stöðu sviðsstjóra viðskiptasviðs í utanríkisráðuneytinu, en var áður einn fjögurra aðstoðarforstjóra OECD, Efnahagssamvinnu- og þróunarstofnunarinnar í París. Þar áður gegndi Berglind embætti ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins.

Berglind lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1978 og M.A. prófi í alþjóða samskiptum árið 1985. Hún hóf störf í utanríkisþjónustunni og starfaði sem sendiráðsritari og síðar sendiráðunautur í utanríkisráðuneytinu og sendiráðunum í Bonn og Stokkhólmi þar til hún var skipuð ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu árið 1988. Berglind gegndi störfum framkvæmdastjóra Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn árin 1996-1999 og tók þá aftur við starfi ráðuneytisstjóra í félagsmálaráðuneytinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×