Innlent

Eðlilegt að skoða vatnalög en óvíst um breytingar

Þórir Guðmundsson skrifar

Geir Haarde forsætisráðherra segir að enn sé óvíst hvort breytingar verði gerðar á vatnalögum. Málið sé á forræði iðnaðarráðherra en krefjist samkomulags stjórnarflokkanna.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sagði í viðtali við ríkisútvarpið í vikunni að iðnaðarráðuneytið hefði vatnalög til skoðunar, lögin sem samþykkt voru fyrr á árinu en taka ekki gildi fyrr en 1. nóvember.

Í viðtalinu gaf Össur sterklega í skyn að hann vildi breyta ákvæðum laganna um að landeigendur fái í sína einkaeigu vatn, og jafnvel grunnvatn, á landi sínu. Geir Haarde var í hádegisviðtalinu á Stöð tvö í tilefni af því að 100 dagar eru frá myndun samsteypustjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Hann sagði eðlilegt að nýr iðnaðarráðherra vildi skoða málið en það ætti þó eftir að fara fyrir ríkisstjórn. Eldglæringar hafa gengið milli Össurar Skarphéðinssonar og Sigurðar Kára Kristjánssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins um þetta mál. Sigurður Kári segir að Össur sé "einn á ferð" í málinu og sé "fastur í hjólförum" stjórnarnandstöðunnar.

Þrátt fyrir kíturnar milli Sigurðar Kára og Össurar segir Geir að forystumenn stjórnarflokkanna hafi notað sumarið til að kynnast og ná saman, enda búnir að vera lengi á öndverðum meiði síðstu tólf árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×