Innlent

Starfsmenn á bæjarskrifstofu styðja Jónmund

MYND/E.Ól

Starfsmenn á bæjarskrifstofu Seltjarnarnesbæjar bætast nú í hóp þeirra sem slá skjaldborg um Jónmund Guðmarsson, bæjarstjóra á Seltjarnarnesi, í kjölfar umfjöllunar DV um bæjarstjórann. Þar kom fram að trúnaðarbrestur hefði orðið innan meirihluta bæjarstjórnar vegna fjarvista hans frá vinnu.

Í tilkynningu frá starfsmönnum bæjarskrifstofunnar kemur fram að í grein DV sé ítrekað talað um „kvartanir lykilstarfsmanna" vegna bæjarstjóra í sumar. Þetta kannist starfsmenn ekki við né að eðlilegt orlof bæjarstjóra hafi með einhverjum hætti haft áhrif á starfsemi bæjarins. Segja þeir samstarfið við bæjarstjóra vera einkar gott og harma umfjöllun blaðsins, telja hana ósanngjarna og meiðandi fyrir starfsmenn og bæjarstjóra og hafna henni með öllu.

Í gær sendur forystumenn Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi frá sér svipaða tilkynningu þar sem lýst er yfir stuðningi við Jónmund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×