Lífið

Jolie heimsækir flóttafólk í Írak og á Sýrlandi

Jolie á tali við eldri konu en hún er ein 1.300 flóttamanna í Írak sem ekki fá að fara yfir landamærin til Sýrlands
Jolie á tali við eldri konu en hún er ein 1.300 flóttamanna í Írak sem ekki fá að fara yfir landamærin til Sýrlands MYND/AP

Hollywoodleikkonan Angelina Jolie heimsótti flóttafólk og hermenn í Írak og á Sýrlandi í byrjun vikunnar. Jolie sem er sendiherra góðgerðarmála hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna dvaldi á svæðinu í tvo daga. Hún heimsótti flóttafólk sem dvelur sitt hvoru megin við landamærin og endaði ferðina á því að hitta bandaríska hermenn á svæðinu.

"Ég ákvað að koma hingað til að draga athygli að þeim mannréttindabrotum sem hér eru framin og til að þrýsta á ríkisstjórnina að auka stuðning sinn við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna," sagði Jolie í samtali við fréttamenn.

Astrid Van Genderen, talsmaður Flóttamannastofnunarinnar, segir að unnið hafi verið að því að skipuleggja heimsóknina um nokkurra vikna skeið og að Jolie hafi átt frumkvæðið að henni. Jolie sem hefur unnið með stofnunni frá árinu 2001 gaf, ásamt unnusta sínum Brad Pitt, eina milljón Bandaríkjadala til flóttafólks í Darfúr héraðinu fyrr á þessu ári.

Flóttamannastofnun sameinuðu þjóðanna áætlar að meira en 4.2 milljónir manna hafi þurft að yfirgefa heimili sín í Írak frá árinu 2003. Talið er að um tvær milljónir hafi flúið yfir til nágrannaríkja á borð við Sýrland, Jórdaníu, Egyptaland og Líbanon en það hefur skapað mikið álag á húsnæðis, heilbrigðis- og menntakerfi landanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.