Lífið

Hasselhoff vinnur meiðyrðamál

Hasselhoff ásamt dóttur sinni
Hasselhoff ásamt dóttur sinni MYND/Getty

Strandavarðarleikarinn David Hasselhoff vann nýverið meiðyrðamál sem hann höfðaði gegn glanstímaritinu OK. Í blaði sem kom út þriðja júlí er því haldið fram að David hafi haldið upp á það að hafa aftur unnið forræði yfir dætrum sínum með því að hella sig blindfullan á næturklúbbi í Los Angeles. Því er einnig haldið fram að hann hafi við sama tilefni gerst ofbeldishneigður.

David missti forræðið yfir dætrum sínum þeim Hayley og Taylor eftir að miður geðfellt myndband með honum barst um netið. Þar situr leikarinn ofurölvi á gólfi að snæða ostborgara og í bakgrunni heyrist í annarri dóttur hans kvarta undan neyslunni. David sem áður deildi forræðinu með fyrrum eiginkonu sinni missti það í kjölfar mynbandsins en endurheimti það svo aftur eftir að hafa bætt ráð sitt. Umfjöllun OK kom sér því sérlega illa.

Hasselhoff fékk forræðið aftur eftir að hafa sýnt fram á að hann væri búinn að snúa baki við áfenginu. Hann segir dætur sínar hafa hvatt sig til að fara í mál við blaðið. Lögfræðingur leikarans greindi frá því fyrir rétti að starfsmenn blaðsins hafi aldrei haft samband við hann til að staðfesta fréttina. Vitni á næturklúbbnum sagði Hasselhoff einungis hafa drukkið orkudrykki og ekki beitt nokkurn mann ofbeldi.

Forsvarsmenn blaðsins hafa nú viðurkennt að fréttin hafi verið uppspuni og auk þess boðist til að birta afsökunarbeiðni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.