Innlent

Flugvél Icelandair gat ekki lent

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Farþegum í flugvél Icelandair brá í brún þegar vélin kom frá Portúgal í nótt. Þegar vélin var í aðflugi varð að hætta við lendingu og hringsólaði vélin í háloftunum í 30 mínútur vegna þess að flugbrautin var ljóslaus.

Haraldur Ólafsson yfirflugumferðarstjóri segir að ljósleysið hafi orsakast af því að rafmagnsbilun varð í aðalrafkerfi á vellinum. Sjálfvirkur búnaður sem kveikir á vararafstöð fór ekki í gang og því varð ljóslaust. Haraldur segir að ekki sé hægt að lenda án ljósa á þessum tíma dags og því hafi vélin þurft að fljúga biðflug í hálftíma áður en hægt var að lenda.

Haraldur segir að það sé mjög óalgengt að flugvélar þurfi að bíða eftir lendingu á Keflavíkurflugvelli en slíkt sé mjög algengt víða erlendis. Hann þvertekur fyrir að farþegum hafi stafað hætta af ljósleysinu í nótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×