Innlent

Nýtt fangelsi á Akureyri

Nýtt fangelsi verður tekið í notkun á Akureyri innan tíðar. Þar verður stórbættur aðbúnaður, enda gamla fangelsið barn síns tíma. Vinna við nýja fangelsið á Akureyri gengur vel og þá er verið að stækka fangelsið á Kvíabryggju. Ekki er allt upptalið því fyrirhuguð er enduruppbygging á Litla hrauni og nýtt fangelsi fyrirhugað á höfuðborgarsvæðinu. Nýja fangahúsið á Akureyri verður væntanlega tekið í notkun í byrjun næsta árs að sögn Valtýs Sigurðssonar, forstjóra fangelsismálastofnunar.

Gamla fangahúsið á Akureyri var löngu úrelt eins og þessar myndir bera með sér. Í skýrslu sem unnin var árið 2004 kemur fram að klefarnir séu allt of litlir, heimsóknaraðstaða engin og lítil aðstaða fyrir fangana að drepa tímann. Nýju fangaklefarnir verða mun stærri og fullkomnari. Alls verður hægt að vista 10 manns af báðum kynjum en ekki bara karla eins og fram til þessa. Það er fjölgun sem nemur tveimur rýmum.

Heildarkostnaður við framkvæmdir er um 200 milljónir og er Akureyrarfangelsið liður í því að auka sveigjanleika í afplánun.

Hingað munu koma fangar með styttri dóma. Þetta verður fangelsi fyrir fanga sem eru flokkaðir í kerfinu einhvers staðar mitt á milli Kvíabryggju og Litla-Hrauns.

Stutt er síðan fangi á Litla-Hrauni svipti sig lífi og segir forstjóri Fangelsismálastofnunar að eitt af því sem bæta þurfi á Akureyri sé aðgengi að geðlæknaþjónustu. Biðtími fanganna eftir geðlækni hafi verið 4-6 vikur fyrir norðan sem sé óásættanlegt. Stytta verði biðtímann. Hins vegar segir hann að fangaverðir á Akureyri hafi unnið mjög gott starf og verið í nánum samskiptum með föngunum sem hafi bjargað miklu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×