Innlent

Nýjar tegundir höfrunga við Íslandsstrendur

Tvær nýjar tegundir höfrunga fundust hér við land við hvalatalningu í sumar. Hvalasérfræðingur segir að sjávardýr, sem áður hafi haldið sig mun sunnar, séu nú að færa sig norður á bóginn vegna hlýnunar sjávar. Í talningunni kom einnig í ljós að hrefnu hafði fækkað á svæðum þar sem hún var áður algeng.

Hópur íslenskra hvalasérfræðinga á vegum Hafrannsóknarstofnunar hefur í sumar tekið þátt í einni umfangsmestu hvalatalningu sem framkvæmd hefur verið í heiminum. Alls tóku átta þjóðir þátt í talningunni.

Vonast er til að hægt verði að kynna niðurstöðurnar á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins næsta vor en sérfræðingar sem tóku þátt í henni segja ýmislegt hafa vakið athygli. Rákahöfrunga hafi til dæmis orðið vart þar sem þeir hafa ekki sést áður.

Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur, segir að vísbendingar séu um að ákveðnar breytingar séu að verða í sjónum við Ísland. Sjórinn hefur verið að hlýna í Norðurhöfum og hefur hlýnunin áhrif á fæðu dýranna og útbreiðslu þeirra. Margar nýjar fisktegundir hafa fundist við Ísland á síðustu fimm til tíu árum. Tegundir sem áður voru við suðurland hafa einnig fært sig og eru komnar norður fyrir landið.

Á meðan á leiðangrinum stóð kom í ljós að hrefnu hafði fækkað á svæðum þar sem sandsílastofninn hefur minnkað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×