Innlent

Dagur hissa á að Björn Ingi komi af fjöllum

Dagur furðar sig á viðbrögðum Björns Inga.
Dagur furðar sig á viðbrögðum Björns Inga.

Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn furðar sig á því að Björn Ingi Hrafnsson stjórnarformaður Faxaflóahafna komi af fjöllum hvað varðar flutning HB Granda upp á Akranes. "Hafi engin samtöl átt sér stað milli meirihluta borgarstjórnar og lykilfyrirtækja í sjávarútvegi um viðbrögð við niðurskurði aflaheimilda er það með ólíkindum," segir Dagur í pósti til vísir.is

Dagur segir m.a. að ef marka megi umfjöllun um málið komi Björn Ingi Hrafnsson formaður stjórnar Faxaflóahafna af fjöllum. Þó sé HB-Grandi líklega einn stærsti viðskiptavinur fyrirtæksins.

"Hafi engin samtöl átt sér stað milli meirihluta borgarstjórnar og lykilfyrirtækja í sjávarútvegi um viðbrögð við niðurskurði aflaheimilda er það með ólíkindum," segir Dagur. "Heilir tveir mánuðir eru síðan Samfylkingin lagði fram skriflega fyrirspurn til borgarstjóra í borgarráði þar sem kallað var eftir svörum við því hvernig borgarstjóri teldi að best yrði haldið á hagsmunum sjávarútvegs á starfsvæði Faxaflóahafna gagnvart niðurskurði aflaheimilda og endurúthlutun þeirra til framtíðar."

Dagur segir að ekkert svar hafi enn verið lagt fram. Það eitt og sér er í hæsta máta óvenjulegt. "Því hlýtur að verða spyrja hvort borgarstjóri og formaður stjórnar Faxaflóahafna hafi virkilega ekkert hugað að hagsmunum sjávarútvegs eða þeirra hundruð fjölskyldna sem byggja afkomu sína af fiskveiðum og vinnslu í stærstu verstöð landsins, Reykjavík." segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×