Innlent

Og fjarskipti mega krefjast greiðslu vegna hlerunar

Póst- og fjarskiptastofnun hefur komist að þeirri niðurstöðu að Og fjarskiptum, sem nú heitir Vodafone, hafi verið heimilt að krefja embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um greiðslu vegna reikninga sem eru tilkomnir vegna beiðna um hlerun.

Lögreglan sendi erindi til Póst- og fjarskiptastofnunar seint á síðasta ári vegna tveggja reikninga frá Vodafone fyrir hlerun á samtals þremur símanúmerum. Sagði lögreglan að Og fjarskiptum væri ekki heimilt að krefjast gjalds fyrir þessa þjónustu en hleranirnar fóru fram utan skriftstofutíma.

Og fjarskipti keyptu aðgang að hlerunarbúnaði hjá Símanum og fram kemur í úrskurði Póst- og fjarskiptastofnunar að að samkvæmt lögum um fjarskipti eigi fjarskiptafélög að útvega búnað fyrir lögreglu til hlerunar.

Hins vegar sé ekki kveðið á um það í lögunum að fjarskiptafyrirtækjum sé ætlað að standa straum af kostnaði sem hlotist getur vegna þjónustu í tengslum við umræddan búnað.

Því var að mati Póst- og fjarskiptastofnunar ekki að finna nein ákvæði í fjarskiptalögum sem kæmu í veg fyrir að Og fjarskiptum væri heimilt að krefjast endurgjalds fyrir veitta þjónustu í tengslum við beiðnir um hlerun sem bærust félaginu utan skrifstofutíma og væru vegna greiðslu á bakvaktarútkalli til tæknimanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×