Innlent

Fleiri þúsund fermetrar inn á fasteignamarkaðinn

Reikna má með fleiri þúsund fermetrar flæði inn á markaðinn þegar vinnubúðir Impreglio verða settar í sölu á næstunni. Mestu flutningar fólks á landinu standa nú yfir frá því í Vestmannaeyjagosinu 1973.

Verktakafyrirtækið Impreglio fækkar nú í haust starfsmönnum sínum við Kárahnjúka en þar er mikil þyrping vinnubúða sem geta skýlt hátt í tvö þúsund manns.

Vinnubúðirnar hafa staðið af sér íslenska vetrarstorma á hálendinu en þær eru af ýmsum stærðum, allt frá því að rúma einn mann upp í tuttugu.

Náttúruverndarsinnar óttast margir að einhver hluti búðanna verði skilinn eftir við Kárahnjúka en Impreglio hyggst selja búðirnar á næstunni að sögn Ómars R. Valdimarssonar talsmanns Impreglio.

Ómar segir að fyrirtækinu sé skylt að ganga þannig frá framkvæmdasvæðinu að engin merki verði um byggðina á Kárahnjúkum.

Ljóst er að mikið verk verður að skila landinu þannig að á því sjáist lítil merki um þá miklu byggð sem þarna hefur verið, en fljótlega hefjast mestu fólksflutningar á Íslandi frá því í Vestmannaeyjagosinu 1973.

Þegar mest var við Kárahnjúka voru þar hátt í tvö þúsund manns en eftir röskan mánuð tekur fólk að flytja í ríkum mæli frá Kárahnjúkum. Að sögn Ómars munu þó verða eftir um 200 manns við Kárahnjúka allt fram til ársloka 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×