Innlent

Skjálftar mælast við Herðubreiðartögl

Engin skjálftahrina hefur komið við Upptyppinga síðan í fyrradag en einhverjir skjálftar hafa þó mælst á svæðinu. Flestir skjálftanna sem nú mælast norðan Vatnajökuls eru við Herðubreiðartögl aðeins suður af Herðubreiðulindum.

Enn er vel fylgst með svæðinu og þrátt fyrir að engar stórar skjálftahrinur hafi mælst við Upptyppinga síðan á miðvikudag þá þýðir það ekki að þeir séu hættir. Við Herðubreiðartögl, sem liggja suðvestur af Herðubreiðulindum hafa hins vegar mælst nokkrir skjálftar í gær og í dag sem virðast vera grynnri en þeir sem mælst hafa við Upptyppinga.

Jarðvísindamenn geta ekki sagt til um hvort þeir skjálftar tengjast þeim við Upptyppinga, hvort kvikan sem er á hreyfingu undir Upptyppingum sé að færa sig úr stað eða hvort skjálftarnir séu það sem þeir kalla eðlilegir skjálftar. Þeir geta heldur ekki útilokað að þeir þýði að kvikan sé að brjóta sér leið upp á yfirborðið á þessum stað. Herðubreiðartögl eru ekki ýkja fjarri Upptyppingum. Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur sagði í viðtali við Stöð 2 í júlí að kvikan gæti í raun leitað upp hvar sem er á Kverkfjallaeldstöðvarsvæðinu, það er frá Kverkfjöllum og að Upptyppingum og Herðubreiðartöglum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×