Innlent

Vélin spann hálfhring skömmu fyrir lendingu

Flugkennari og nemi hans þykja hafa sloppið furðuvel þegar þeir þurftu að nauðlenda flugvél sinni í Kapelluhrauni suður af Straumsvík laust eftir klukkan sjö í gærkvöld. Samkvæmt upplýsingum frá rannsóknarnefnd flugslysa voru þeir við hægflugsæfingu á svokölluðu Suðursvæði.

Skyndilega fór vélin að síga til jarðar og spann hún hálfhring en mennirnir náðu að rétta hana af áður en hún lenti og endaði hún á hjólunum í hrauninu. Þau brotnuðu og rann vélin stuttan spöl á hvolfi.

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti mennina því torsótt var að komast að slysstað. Svæðinu þar sem vélin lenti hefur nú verið lokað vegna eldhættu en bensín lak úr vélinni við slysið. Hún verður síðar flutt í skýli rannsóknarnefndar sem heldur áfram rannsókn sinni á slysinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×