Innlent

Reksturinn kostar milljarð út næsta ár

Sighvatur Jónsson skrifar

Rekstur íslenska ratstjárstöðvakerfisins mun kosta milljarð króna út næsta ár, en ekki er gert ráð fyrir þessum kostnaði í fjárlögum. Formaður Vinstri-grænna gagnrýnir það og er ósáttur við vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í varnarmálum. Aðeins hluti af kerfinu nýtist Íslandi. Formaður utanríkismálanefndar segir marga enda enn lausa nokkrum dögum áður en Íslendingar taka við rekstri ratsjárstöðvanna.

Utanríkismálanefnd ræddi heræfingu og varnarsamstarf við NATO á fundi í morgun. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, fór fram á fundinn til að fá svör við hvaða kostnað Íslendingar bera af heræfingunni Norður-víkingur, sem hefst á mánudaginn. Sá kostnaður nemur 45 milljónum króna.

Nýlegt samkomulag um eftirlit Atlantshafsríkja með lofthelgi Íslands fjórum sinnum á ári var einnig rætt. Forsenda samstarfsins er rekstur íslenska ratstjárstöðvarkerfisins. Kostnaður vegna þess nemur um 200 milljónum á þessu ári og 800 milljónum á því næsta.

Íslendingar taka við rekstri ratsjárstöðvanna 15. ágúst. Kerfið safnar bæði upplýsingum um borgaralegt flug, og leynileg flug orrustuþotna. Ekki liggur enn ljóst fyrir hvernig upplýsingarnar um herflugvélar verða nýttar - sem dæmi hvort og þá hvernig verði brugðist við.

Bjarni Benediktsson, formaður utanríkismálanefndar, segir að það komi sér á óvart hversu margir lausir endar séu á málinu, nú þegar aðeins nokkrir dagar eru þar til Íslendingar taka við rekstri ratsjárstöðvanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×