Innlent

Von á yfirlýsingu frá bæjarstjórn Akureyrar

Margir eru óánægðir með ákvörðun bæjaryfirvalda að meina ungmennum að heimsækja bæinn um síðustu helgi.
Margir eru óánægðir með ákvörðun bæjaryfirvalda að meina ungmennum að heimsækja bæinn um síðustu helgi.

Töluverð umræða hefur skapast í kjölfar undirskriftasöfnunar sem Birgir Torfason veitingamaður á Akureyri stendur fyrir vegna þess að ungmennum var bannað að tjalda í bænum um síðustu helgi. Bæjarfulltrúi segir í samtali við Vísi að yfirlýsingar vegna málsins sé að vænta í kvöld eða í fyrramálið.

Birgir krefst þess að Bæjarstjóri Akureyrar ásamt meirihluta bæjarstjórnar segi af sér. Hann segir verslunarmenn í bænum hafa orðið fyrir tapi um verslunarmannahelgina sem nemur milljónatugum vegna þeirrar ákvörðunar að meina ungmennum á aldrinum 18 - 23 ára að tjalda í bænum um síðustu helgi. Þessi ákvörðun sýnir, að mati Birgis, að bæjarstjórnin og bæjarstjórinn séu með öllu vanhæf til þess að sinna skyldum sínum í þágu bæjarbúa.

Ekki hefur náðst í bæjarstjórann, Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, né forseta bæjarráðs, Hermann Jón Tómasson, vegna málsins í dag. Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri sem situr í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn sagði í samtali við Vísi að von væri á yfirlýsingu frá bæjarstjórninni vegna málsins í kvöld eða í fyrramálið. Hann vildi því ekki tjá sig um málið að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×