Innlent

Alþjóðlegir fjársvikarar herja á Íslendinga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bréfið sem barst til manns á höfuðborgarsvæðinu.
Bréfið sem barst til manns á höfuðborgarsvæðinu.
Embætti ríkislögreglustjóra rannsakar alþjóðlegt fjársvikamál, þar sem nokkrum Íslendingum hafa borist bréf frá bresku fyrirtæki sem kallar sig Australian Lottery. Í þessum bréfum er fólk hvatt til að hafa samband vegna lotterívinninga sem það á að hafa unnið. Fólk er síðan beðið um að hafa samband við fyrirtækið og gefa upp bankaupplýsingar sínar.

Vísir hefur undir höndum bréf sem barst manni á höfuðborgarsvæðinu frá fyrirtækinu. Maðurinnn segist aldrei hafa tekið þátt í neinu lotteríi utan Íslands og því engar líkur til þess að hann ætti von á vinningi. Í bréfi til mannsins segir að fyrirtækinu sé það sönn ánægja að tilkynna niðurstöður í alþjóðlegu lotteríi sem dregið hafi verið í þann 27. júlí síðastliðinn. Gefið er upp ákveðið miðanúmer og raðnúmer á miða sem sagt var að maðurinn hefði keypt. Bréfið kom frá Bretlandi og er undirritað af Kelly Royce.

Þegar Vísir hafði samband við Australian Lotterí gátu talsmenn þess ekki útskýrt hvers vegna maðurinn hafi fengið bréfið og neituðu að tjá sig um málið.

Páll Egill Winkell aðstoðarríkislögreglustjóri segir að þessi svikamylla fyrirtækisins sé í rannsókn. Lögreglunni sé kunnugt um að Íslendingum hafi borist bréf frá fyrirtækinu en viti ekki til þess að nokkur hafi orðið fyrir tjóni. Lögreglan hvetur þá sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni vegna málsins til að leggja fram kæru hjá lögreglu í viðkomandi umdæmi, sem muni tilkynna málið til alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×