Innlent

Samfylkingin gagnrýnir aukafund um Kársnes í gær

Sighvatur Jónsson skrifar

Oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi gagnrýnir Sjálfstæðismenn í bænum fyrir að hafa boðað til aukafundar í gær vegna nýs deiliskiplags á Kársnesi, þar sem fjölga á íbúðum. Réttara hefði verið að taka málið fyrir á næsta reglulega fundi bæjarstjórnar í lok ágúst. Bæjarstjóri Kópavogs neitar því að fundinum hafi verið flýtt til að keyra málið í gegn.

Nýtt deiliskipulag fyrir reit 4 var samþykkt í bæjarstjórn Kópavogs í gær, en áður hafði reitur 7 verið samþykktur. Alls eru nýir skipulagsreitir 10, þótt ekki sé enn komið deiliskipulag að þeim öllum.

Í stað eldra atvinnuhúsnæðis verða byggðar íbúðir, og munu ríflega 200 nýjar íbúðir rísa á reit 4. Aukin bílaumferð hefur verið gagnrýnd en bæjarstjóri Kópavogs telur að Kársnesbrautin geti hæglega flutt allt að 2.000 fleiri bíla á næstu 5-8 árum.

Minnihlutinn telur málið ekki hafa verið nægilega rætt. Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar, sakar Sjálfstæðismenn um að keyra málið í gegn, meðan fólk er í sumarfríi.

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, vísar þessu á bug, og segir Samfylkinguna hafa beðið um fundinn. Aðspurður hvort einhverju hefði skipt þótt fundurinn hefði verið haldinn í lok ágúst, segir hann að það hafi verið orðið tímabært að afgreiða málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×