Innlent

Illa gengur að manna störf í Dalabyggð og Reykhólasveit

Á sama tíma og atvinnuástand fer versnandi víða í sjávarplássum vegna skerðingar á þorskkvóta vantar sárlega starfsfólk í Dalabyggð og Reykhólasveit. Ljóst er að þessar byggðir keppa við höfuðborgarsvæðið um fólk í sömu störf.

Mikill vöxtur er í Dalabyggð og þar vantar starfsfólk í flestar greinar. Mikið er byggt í Dalabyggð og því er engin ekkla á húsnæði að sögn Gunnólfs Lárussonar, bæjarstjóra. Ferðamennska hefur verið í miklum vexti á vesturlandi í sumar og umsvif bæjarins eru að aukast á flestum sviðum.

Óskar Steingrímsson, sveitarstjóri Reykhólahreppi, segir að illa hafi gengið að manna stöður við leikskólann, sem er svipað vandamál og menn kljást við á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem störf á hjúkrunar- og dvalarheimili hafa ekki verið fullmönnuð þar í sveit. Óskar segir að þessi mannekla valdi álagi á þá sem starfa hjá sveitarfélaginu og álagið sé stundum miklu meira en æskilegt geti talist.

Sveitarstjórnarmenn í Dölunum og í Reykhólasveit vonast til að takist að manna allar lausar stöður fyrir veturinn en ljóst er að þeir eru að keppa við höfuðborgarsvæðið um fólk í svipuð störf.

Þrátt fyrir mannekluna ætla menn ekki að draga úr þjónustu við íbúana fyrir vestan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×