Innlent

Ráðherra lítur eineltið alvarlegum augum

Tjáir sig ekki um starfsmannamál einstakra stofnana.
Tjáir sig ekki um starfsmannamál einstakra stofnana. mynd/visir.is

Þórunn Sveinbjarnadóttir umhverfisráðherra lítur eineltið innan Veðurstofunnar alvarlegum augum en vill ekki blanda sér í starfsmannamál einstakra stofnana sem heyra undir embætti hennar. Þetta kom fram í spjalli vísir.is við aðstoðarkonu ráðherrans, Önnu Kristínu Ólafsdóttur. Tveir veðurfræðingar á Veðurstofunni tjáðu sig um málið í Kastljósinu í gærkvöldi.

"Ráðherra vill ekki blanda sér í starfsmannamál einstakra stofnanna en að sjálfsögðu fylgist hún með og lítur þetta mál alvarlegum augum," segir Anna Kristín Ólafsdóttir.

Þær sem tjáðu sig um málið voru Ásdís Auðunsdóttir og Elín Björk Jónasdóttir. Kom m.a. fram að þetta hefði skapað neikvætt og erfitt starfsumhverfi fyrir þær.

Í máli Ásdísar, kom einnig fram að hún hefði kvartað undan eineltinu við Magnús Jónsson forstjóra stofnunarinnar. Það hafi hinsvegar leitt til þess að eineltið versnaði í garð hennar í stað þess að batna.

Magnús Jónsson er staddur erlendis í augnablikinu. Jón Gauti Jónsson staðgengill hans vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti en því að ekki væri rétt af honum að fjalla um einstök atriði þess að svo stöddu. "Við erum að vinna að lausn á þessum vanda hér innan stofnunarinnar," segir Jón Gauti ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×