Innlent

Hnúfubakur leikur listir sínar á Faxaflóa

Þessi mynd náðist af hnúfubaki á mánudag.
Þessi mynd náðist af hnúfubaki á mánudag. MYND/Andri Þór Steingrímsson
Hnúfubakur eða hnúfubakar hafa leikið listir sínar fyrir gesti í hvalaskoðunarskipum Hvalaskoðunar Reykjavíkur undanfarna daga. Þrisvar á innan við viku hefur hnúfubakur komið stökkvandi upp úr sjónum skammt frá hvalaskoðunarbát úti á Faxaflóa en það er afar fágætt að sögn Evu Maríu Þórarinsdóttur, markaðsstjóra Hvalaskoðunar Reykjavíkur.

„Það hefur verið lítið um hnúfubak á Faxaflóa undanfarin tvö ár en meira um hrefnur, höfrunga og hnísur. Hnúfubakar hafa sést tvisvar til þrisvar á sumri en nú hefur áhöfn hvalaskoðunarskipsins séð einn slíkan þrisvar á einni viku," segir Eva María.

Ekki er vitað hvort um er að ræða sama hnúfubakinn sem leikið hefur listir sínar í öll þrjú skiptin en sýningarnar hafa allar verið tilkomumiklar að sjá. Sú fyrsta var á laugardag, sú önnur á mánudag og svo aftur í dag.

Hnúfubakurinn er stærstur og þyngstur þeirra hvala sem sjást að jafnaði í Faxaflóanum en hann getur orðið allt að 17 metrar að lengd og 40 tonn að þyngd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×