Innlent

Hálslón að verða fullt

Mun hraðar hefur runnið í Hálslón en áætlað var og vantar nú aðeins rúma 10 metra upp á að það verði fullt. Raforkuframleiðsla á að hefjast þar í október og hyggjast forsvarsmenn Kárahnjúkavirkjunar stýra streyminu síðustu metrana meðan gengið er frá yfirfalli Kárahnjúkastíflu.

Hlýindi í sumar hafa gert það að verkum að safnast hefur hraðar í lónið en til stóð. Tæpt ár er síðan að tappinn var settur í Hálslón og átti lónið að ná fullri hæð, það er 625 metrum yfir sjávarmáli í lok mánaðarins. Við hönnun Kárahnjúkastíflu var gert ráð fyrir að Hálslón fylltist á tilteknum hraða og til þess að draga úr fyllingingarhraðanum gripu Landsvirkjunarmenn til þess ráðs að opna botnrás stíflunnar og hleypa þar vatni út. Aðeins hefur kólnað á svæðinu síðastliðna viku og því er botnrásin nú opin til hálfs.

Ekki er langt í að lónið fyllist. Sandfell er nú orðið að Sandey og hæð lónsins er komin í 614 metra yfir sjávarmáli. Því vantar aðeins 10 metra upp á að það verði barmafullt. Samkvæmt áætlun á lónið að ná 623 metra hæð í byrjun september en þar sem eftir er að ganga frá yfirfalli Kárahnjúykastíflu þá verður geymt að fylla síðustu tvo metra lónsins þar til í október að því er Sigurður Arnalds talsmaður Kárahnjúkavirkjunar sagði í samtali við fréttastofu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×