Innlent

Ferðamönnum fjölgar í Drekagili

Ferðamannastraumur um hálendi Íslands hefur aukist mikið að undanförnu. Herðubreiðarlindir sem áður voru einn vinsælasti áningastaðurinn á Sprengisandsleið hafa nú þurft að lúta í lægra haldi fyrir öðrum áningastað, Drekagili.

Það er óhætt að segja að Hálendi Íslands hafi skartað sínu fegursta í gær þegar við flugum þar yfir; Kverkfjöll, Askja og Herðubreið nutu sín vel í sólskininu.

Herðubreiðulindir hafa lengi vel verið einn vinsælasti áningastaðurinn á þessum slóðum. Nú er svo komið að annar staður, ekki ýkja fjarri, er orðinn vinsælli. Um nýliðna verslunarmannahelgi voru til að mynda á þriðja hundrað manns sem gistu í Drekagili hverja nótt.

Og það er aðallega Askja sem dregur ferðamenn að þessum stað enda er mikilfenglegt að ganga upp á hana, nú eða að Víti þar sem oft er hægt að lauga sig í volgu vatninu.

Á meðan á stuttu stoppi okkar í Drekagili stóð var umferð þar um mikil. Hópur fólks gæddi sér á hádegisverði í blíðviðrinu eða virti fyrir sér drekana sem gilið er kennt við. Og þeim fjölgar stöðugt sem sækja þennan fallega stað heim.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×