Innlent

Virkari samkeppni en áður á olíumarkaði

Olíufélögin skiluðu öll lakari afkomu í ár en síðasta ár sem skýrist af harðri samkeppni að sögn Albert Þórs Magnússonar, framkvæmdarstjóra Atlantsolíu. Eldsneytisverð hækkaði um allt að þrjár krónur um helgina og kostar bensínlítrinn nú að jafnaði um 125 krónur hjá stóru olíufélgögunum þremur.

Það voru Skeljungur og N1 sem riðu á vaðið á laugasrdag og hækkuðu eldsneytisverð á afgreiðslustöðvum sínum. Önnur fyrirtæki fylgdu svo í kjölfarið og hækkuðu verð hjá sér. Að jafnaði kostar bensínlítrinn um 125 krónur hjá stóru olíufélögunum þremur og verð á díselolíu er 124 krónur fyrir hvern lítra. Atlantsolía var síðast til að hækka eldsneytisverð og kostar lítrinn af bensíni hjá þeim nú 123,40 sem er 10 aurum meira en á útsölustöðum Orkunnar þar sem bensínið er ódýrast.

Samkvæmt heimildum fréttastofu þá er afkoma olíufélaganna mun lakari í ár en fyrri ár sem leiðir líkum að því að samkeppni sé orðin mun harðari á þessum markaði en áður. Þeir stjórnendur olíufélaganna sem fréttastofa ræddi við taka undir þetta og segja að reksturinn sé orðinn mjög harður og að slegist sé um hvern viðskiptavin. Undir það tók Albert Þór Magnússon, framkvæmdarstjóri Atlantsolíu þegar fréttastofa ræddi við hann í morgun. Hann sagði af sem áður var hjá stóru olíufélögunum. Það skýri þó ekki verðhækkun á eldsneyti nú heldur sé það frekar svo að reynt sé að draga það eins lengi og unnt er að hækka verðið og að hækkunin sé í raun ekki næg til að mæta breytingum á gengi dollars. Enn séu stóru olíufélögin þó í samstarfi til að mynda í sambandi við birgðargeymslu og fleira í þeim dúr en nú lúti þeir sömu lögmálum markaðarins og Atlantsolía sem sé mikil bót frá því þegar olíusamráðið var og hét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×