Innlent

Þrjú alvarleg bílslys í umdæmi Selfosslögreglu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Helgin var lögreglumönnum á Selfossi erfið.
Helgin var lögreglumönnum á Selfossi erfið. Mynd/ Hörður Sveinsson
Þrjú alvarleg bílslys urðu í umdæmi lögreglunnar á Selfossi um verslunarmannahelgina. Í gær varð banaslys á Laugarvatnsvegi á móts við bæinn Þóroddsstaði. Á sunnudag varð bílvelta við Hvítárholt, nálægt Flúðum og á laugardagsmorgun velti bíll nærri Ingólfsfjalli, eftir því sem fram kemur í dagbók lögreglunnar.

Ungur karlmaður lét lífið þegar hann ók bíl sínum út af og velti honum á Laugarvatnsvegi til móts við Þóroddsstaði á áttunda tímanum í gærmorgun. Ökumaðurinn var einn í bíl sínum en talið er að hann hafi kastast út úr bílnum. Þetta var sjötta banaslysið í umferðinni á árinu

Á sunnudagsmorgun hugðust lögreglumenn athuga ástand ökumanns við Flúðir. Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum og ók inn á veg að Hvítárholti. Í beygju á blindhæð missti ökumaður stjórn á bifreiðinni í lausamöl og hafnaði í skurði. Tveir voru í bifreiðinni ökumaðurinn og eigandi bifreiðarinnar sem var farþegi. Þeir slösuðust báðir lítillega. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur.

Á laugardagsmorgun var tilkynnt um bifreið á hvolfi utan vegar undir Ingólfsfjalli skammt austan við Kögunarhól. Í ljós kom að bifreiðinni hafði verið ekið austur Suðurlandsveg og ökumaður misst stjórn á bifreiðinni á veginum með þeim afleiðingum að hún fór út af sunnan megin vegarins. Bifreiðin valt og talið er að hún hafi runnið á toppnum áfram þar sem hún stakkst í skurðbakka og kastaðist uppúr skurðinum og stöðvaðist á toppnum á skurðbakkanum. Ökumaður, sem var einn í bifreiðinni, kastaðist út úr henni og lá á skurðbotninum þegar að var komið. Mikið lán var að lítið sem ekkert vatn var í skurðinum en maðurinn gat sig hvergi hreyft þegar að honum var komið. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala í Fossvogi vegna höfuðáverka. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×