Innlent

Var veitt eftirför skömmu áður en hann ók út af

Karlmaður á þrítugsaldri lét lífið þegar hann ók bíl sínum út af og velti honum skammt frá Laugarvatni í morgun. Lögreglan hafði skömmu áður reynt að stöðva för bílsins en misst sjónar af honum.

Það var um sjöleytið í morgun sem lögreglumenn, sem voru að aka í átt að Selfossi, mættu bifreiðinni á Biskupstungnabraut milli Seyðishóla og Minni Borgar. Þeir gáfu ökumanninum merki um að stöðva bifreiðina þar sem þeir vildu kanna ástand hans. Ökumaðurinn brást hins vegar ekki við stöðvunarmerkjum og meðan lögreglumennirnir voru að snúa bifreið sinni við jók ökumaður bílsins hraðann. Lögreglumennirnir veittu honum eftirför en misstu fljótt sjónar á honum eða fljótlega eftir að þeir keyrðu framhjá Minni Borg.

Þeir töldu sig hafa séð að bíllinn stefndi upp Laugavatnsveg. Þeir slökktu á forgangsljósum til að draga úr hættu og óku í þá átt.

Þegar lögreglumennirnir voru komnir inn á Laugarvatnsveg sáu þeir ryk- og gufumökk á veginum á móts við Þóroddsstaði. Bíllinn hafði þá farið út af. Lögreglan telur að ökumaðurinn hafi misst stjórn á bíl sínum í beygju, ekið honum út af og farið nokkrar veltur.

Talið er að maðurinn hafi kastast tíu til fimmtán metra út úr bílnum. Þegar lögreglan kom á vettvang var ökumaðurinn meðvitundarlaus og reyndu þeir lífgunartilraunir. Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út en þegar ljóst var að lífgunartilraunir báru ekki árangur og maðurinn var látinn var hún afturkölluð.

Þetta er sjötta banaslysið í umferðinni á árinu. Lögreglumenn og Rannsóknarnefnd umferðarslysa rannsökuðu vettvang í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×