Innlent

Karlmaður á sjötugsaldri fannst alvarlega slasaður í nótt

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Rúmlega sextugur karlmaður, sem fannst liggjandi í blóði sínu á miðri götu í Breiðholti í gærkvöldi, er á batavegi. Hann er þó enn á gjörgæsludeild og í öndunarvél. Ekki er vitað hvort ekið var á hann, ráðist hafi verið á hann eða hann hlotið áverkana á annan hátt.

Manninum er haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild Landspítalans. Vegfarendur komu að manninum klukkan rétt rúmlega tíu í gærkvöldi þar sem hann lá í blóði sínu og var hann með alvarlega áverka. Vegfarendur endurlífguðu hann en hann var orðinn blár þegar þeir komu að og var í hjartastoppi.

Maðurinn fannst í Hraunbergi í Breiðholti en söluturn er í húsinu sem stendur við götuna þar sem maðurinn fannst. Starfsfólk söluturnsins hringdi á lögreglu og sjúkrabíl.

Bremsuför fundust á vettvangi en þó er ekki vitað hvort að þau hafi verið eftir bíl sem þurfti að nauðhemla þegar ökumaðurinn sá manninn liggjandi á götunni eða hvort einhver hafi ekið á manninn og stungið af. Lögreglan útilokar ekki heldur að maðurinn hafi hlotið áverkana á annan hátt. Lögreglan segir engin vitni hafa gefið sig fram og hefur lítið viljað gefa upp um rannsókn málsins. Hún hefur þó einhverjar vísbendingar sem verið er að kanna.

Lögreglan biður alla þá sem einhverjar upplýsingar hafa um atvikið að hafa samband í síma 444-1000.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×